Hússtjórnarbraut

Markmið hússtjórnarbrautar er að veita nemendum tækifæri til menntunar í hússtjórnargreinum sem mun nýtast þeim í daglegu lífi, opna hug þeirra fyrir framhaldsnámi og kenna þeim mikilvægi þess að lifa heilbrigðu lífi. Stefna skólans er að miðla af sérhæfðri þekkingu og skapa vaxtarskilyrði fyrir menntun og þroska nemenda. Leitast er við að efla ábyrgðarkennd, sjálfstæði, gagnrýna hugsun, víðsýni og frumkvæði. Að námi loknu eiga nemendur að hafa góða undirstöðuþekkingu í matreiðslu, hreinlætisfræði, heilbrigðisfræði og handverksgreinum og vera færir um að nýta hana við margvísleg verkefni í daglegu lífi, starfi og við frekara nám.  

Inntökuskilyrði: Að nemandi hafi lokið grunnskólaprófi með hæfnieinkunn B í stærðfræði, íslensku og ensku.

Námið er að mestu verklegt og kennsludagurinn samfelldur. Töluvert starfsnám á sér stað utan hefðbundinna kennslustunda og fer starfsnám fram fyrir kennslu að morgni, eftir kennslu á kvöldin og um helgar. Nám á brautinni samanstendur af áföngum á 2. og 3. hæfniþrepi sem veita undirbúning undir frekara nám og störf. Nemandi sem lýkur öllum einingum brautarinnar telst útskrifaður með hússtjórnarpróf.

Ef frekari upplýsinga er óskað er hægt að hafa samband með tölvupósti hushall@hushall.is eða í síma 471 1761.