Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði eru að nemendur hafi lokið grunnskólaprófi með hæfnieinkunn B í stærðfræði, íslensku og ensku og leggi einkunnir því til staðfestingar. Nemanda ber að sækja um skólavist með rafrænum hætti í gegnum heimasíðu skólans www.hushall.is. Til að fullgilda umsóknina þarf að senda afrit af fyrri námsferli. Nemendur á heimavist þurfa að gefa upp tengilið/forráðamann. Skólameistari mun hafa samband við forráðamenn ólögráða nemenda og kalla eftir skriflegri staðfestingu frá nemenda og forráðamanni á umsókn nemendans. Við staðfestingu samþykkir nemandi að hlíta reglum skólans og veitir nemandi stjórnendum skólans heimild til að veita forráðamönnum upplýsingar ef þurfa þykir og leita aðstoðar hjá þeim ef um er að ræða brot á skólareglum, veikindi eða önnur vandkvæði. Skólinn áskilur sér rétt til að taka nemendur í inntökuviðtöl og fá upplýsingar um fyrra nám og um ástundum í skóla eða vinnu. Ef nemandi hefur átt við langvarandi veikindi að stríða, er með fötlunargreiningar eða námsörðugleika krefst skólinn þess að fá allar upplýsingar um viðkomandi í þeim tilgangi að geta sem best sinnt þörfum væntanlegra nemenda og/eða metið hvort skólinn geti tekið á móti þeim. Sé nemandi ólögráða áskilur skólinn sér rétt til að taka viðtal við forráðamenn til að afla ofangreindra upplýsinga, enda hafi þeir staðfest umsókn um skólavist fyrir nemandann. Komið er til móts við nemendur með sérþarfir, s.s. lesblindu og hreyfihömlun eftir því sem unnt er, en því miður hefur skólahúsið ekki aðgengi fyrir alvarlega hreyfihamlaða. Nemendur sem eru 18 ára og eldri hafa forgang í skólann og á heimavist. Skólameistari er ábyrgur fyrir inntöku nemenda í skólann. Skólameistari svarar umsækjendum eins fljótt og auðið er um hvort þeir hafi hlotið skólavist. Með greiðslu skólagjalds staðfestir nemandi endanlega að hann þiggi skólavist með þeim réttindum og skyldum sem því fylgja.